Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hækkaði í dag um 1,3% og stóð við lok markaða í 3.854 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis. Þetta er jafnframt í fyrsta skipti í vikunni sem Úrvalsvísitalan hækkar við lok markaða.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,3% í gær en hækkaði strax við opnun markaða í morgun og hefur hækkað nánast jafnt og þétt í dag.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga. Einnig má nú sjá markaðsupplýsingar hér til hægri á vef Viðskiptablaðsins.

Velta með hlutabréf var um 11,4 milljarðar króna. Þar af voru rúmlega helmingurinn, eða 6,3 milljarðar króna með bréf í Glitni [ GLB ] en fyrir opnun í morgun fóru fram viðskipti fyrir um 5 milljarða með bréf í félaginu.

Þá var velta fyrir um 2,3 milljarðar króna með bréf í Landsbankanum [ LAIS ], rúmlega 1,7 milljarðar króna með bréf í Kaupþing [ KAUP ] en nokkuð minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Nokkur sveifla hefur verið á krónunni í dag og hefur hún það sem af er degi veikst um 1,2%. Krónan veiktist strax í morgun um tæpt prósent en hafði um og eftir hádegi aftur náð jafnvægi.

Nú seinni part dags hefur hún veikst á ný og stendur gengisvísitalan nú í 178,1 stig en gjaldeyrismarkaði eru þó enn opnir.