Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði um 1,5% í dag og stóð við lok markaða í 4.058 stigum samkvæmt markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir dagsins en aðeins eitt félag, Eik banki [ FO-EIK ] hækkaði í dag. Þó eru aðeins um 72 þúsund króna viðskipti á bakvið hækkun bankans.

Með því að smella á mynd nr. 2 hér til hliðar má sjá þróun Úrvalsvísitölunnar frá því í maí 2005. Úrvalsvísitalan hefur nú ekki verið lægri síðan þá, eða í tæpa 40 mánuði.

Þann 23. maí 2005 var lokagildi vísitölunnar 4074,8 stig en þann 17. maí var vísitalan 4053 stig við lok markaða.

Velta með hlutabréf var þónokkur í dag miðað við síðustu daga og vikur eða um 4,7 milljarðar. Þar af var rúmlega helmingur með bréf í Kaupþing [ KAUP ] eða um 2,6 milljarðar.

Rúmlega 790 milljóna króna velta var með bréf í Landsbankanum [ LAIS ], um 270 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ] og annað eins með bréf í Straum [ STRB ] og um 230 milljónir með bréf í Exista [ EXISTA ] en minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Dregið hefur úr veikingu krónunnar frá því í morgun og hefur hún nú veikst um 1,9%. Fyrr í dag hafði krónan veikst um 2,5% en gjaldeyrismarkaðir eru enn opnir.