Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,52% og er 5.449,50 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Við lok markaðar hefur ekkert félag hækkað.

Lækkunina má rekja að hluta til viðvörunarorða matsfyrirtækisins Fitch Ratings, segja sérfræðingar.

Bakkavör Group lækkaði um 4,60%, Dagsbrún lækkaði um 4,58%, FL Group lækkaði um 3,74% og Mosaic Fashions lækkaði um 2,94%.

Gengi krónu veiktist um 1,54% og er gengisvísitalan 130,97 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.

Fitch Ratings, sem breytti lánshæfishorfum ríkissjóðs í neikvæðar úr stöðugum í febrúar, sagði í dag að líkur á harðri lendingu íslensku hagkerfisins hafi aukist.

?Hætta á harði lendingu hefur aukist síðan í febrúar. Stýrivextir hafa hækkað um 175 punkta síðan þá. Það tekur tíma fyrir stýrivaxtahækkanir hafa áhrif," segir Paul Rawkins, sérfræðingur hjá Fitch Ratings.

Standard & Poor's breytti lánshæfishorfum sínum í neikvæðar úr stöðugum fyrr í þessum mánuði, sem ýtti undir væntingar um frekari stýrivaxtahækkanir. Stýrivextir eru nú 12,25%. Á sama tíma tilkynnti Halldór Ásgrímsson að hann hefði ákveðið að hætta í stjórnmálum og segja sérfræðingar afsögn forsætisráðherra hafa komið á óheppilegum tíma.

Þegar Fitch Ratings breytti lánshæfishorfum sínum hafði það mjög neikvæð áhrif á hlutabréfaverð og gengi krónunnar og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki orðið til styrkingar hennar þrátt fyrir að vera verulegar.