Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,45% og er 6.379 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðvakt Mentis. Veltan nemur 21.883 milljónum króna. Kaupþing banki birt uppgjör sitt í morgun.

Stærstu einstöku viðskipti dagsins nema 16,2 milljörðum króna með bréf Exista og fór fram á genginu 22,1 krónu á hlut. Ekki hefur borist tilkynning til Kauphallarinnar um hver standi að baki viðskiptunum.

Bakkavör Group hækkaði um 0,17% og er eina félagið sem hækkaði í dag.

Landsbankinn lækkaði um 2,64%, Tryggingamiðstöðin lækkaði um 2,64%, Straumur-Burðarás lækkaði um 2,35%, Atlantic Petroleum lækkaði um 2,35% og Atorka Group lækkaði um 1,86%.

Gengi krónu veiktist um 2,01% og er 121 stig við lok dags. Danska götublaðið Ekstra Bladet mun birta neikvæða umjöllun um íslensku útrásina á sunnudaginn næstkomandi og segir Lars Christensen, einn höfunda dökku skýrslu Danske Bank, að orðrómur um fréttina hafi stuðlað að veikingu krónunnar í dag.