Úrvalsvísitalan lækkar um 3,03% og er 6.297,56 stig við lok dags. Miklar lækkanir hafa einkennt daginn í kjölfar útkomu skýrslu Merrill Lynch um lánshæfi bankanna.

Um leið og markaðir opnuðu lækkaði Landsbankinn um 7,5%. Um hádegisbilið náði gengi félagsins sér eitthvað á strik en fór svo aftur að síga. Við lok dags hefur félagið lækkað um 4,48%. Velta með bréf bankans nam einum og hálfum milljarði í dag.

FL Group hefur lækkað mest, eða um 4,98%. Velta með bréf félagsins var 371 milljón.

Straumur-Burðarás lækkaði næst mest eða um 4,64%. Velta með bréf félagsins var álíka FL Group í dag.

Landsbankinn skipar þriðja sætið, með 4,48% lækkun eins og fyrr segir.

Íslandsbanki lækkar um 3,98%. Velta með bréf bankans var um 885 milljónir.

Kaupþing lækkar um 3,33%. Velta með bréf bankans nam um 1,3 milljörðum.

Grandi hækkar mest, eða um 5,34% í fjórum viðskiptum upp á 22,22 milljónir króna.

Icelandic Group hækkar um 3,87%. Það eru fimmtán viðskipti upp á 24,54 milljónir.

Actavis Group hækkar þriðja mest, eða um 1,75%. Veltan á bakvið þau eru hátt í tveir milljarðar í 123 viðskiptum.