Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði í dag um 0,1% og stóð við lok markaða í 3.967 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en þar sést hvernig Eimskipafélagið [ HFEIM ] lækkaði um 21,2% í dag. Dagurinn var nokkuð dökkur fyrir Eimskip, XL Leisure varð gjaldþrota og Eimskip tapaði 20 milljón evrum á þriðja ársfjórðungi.

Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun í morgun og hafði fram til klukkan 15 lækkað um 0,2% en hafði fyrr í dag lækkað um rúmt prósent.

Hins vegar tók hún kipp upp á við tæplega hálftíma fyrir lokun og hafði þegar markaðir lokuðu næstum náð sama gildi og við lokun markaða í gær.

Þetta er annar dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan tekur kipp upp á undir lokun eftir að hafa lækkað jafnt og þétt yfir daginn.

MIkil velta undir lok dags

Velta með hlutabréf var þónokkur eða um 6,2 milljarðar króna. Þar af voru um 3,9 milljarðar með bréf í Landsbankanum [ LAIS ]. Rétt eftir klukkan 15 í dag fóru fram mikil viðskipti með bréf í Landsbankanum, þar á meðal stök viðskipti fyrir tæpa tvo milljarða.

Um er að ræða sölu á 91 milljón hlutum á genginu 21,9 en við lok markaða var gengi Landsbankans 22,05 en bankinn hækkaði um 1,9% í dag.

Þá var velta fyrir um 1,2 milljarða með bréfi í Kaupþing [ KAUP ], um 360 milljónir fyrir bréf í Glitni [ GLB ] og um 330 milljónir með bréf í Straum [ STRB ] en minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Krónan stendur svo að segja í stað frá opnun gjaldeyrismarkaða í morgun og er gengisvísitalan nú 168 stig. Krónan hafði þó veikst um rúmt prósent fyrr í dag en það hefur gengið til baka.

Gjaldeyrismarkaðir eru þó enn opnir.