Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í dag og stóð við lok markaða í 3.123 stigum, samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 5,9% í gær og hélt áfram að lækka strax við opnun markaða í morgun. Lægst fór vísitalan í 3.029 stig en rétt fyrir kl. 15 tók hún viðsnúning upp á við og hafði eins og fyrr segir lækkað um 0,4% við lok markaða.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga. Þrjú félög, Landsbankinn og Atlantic Patroleum og Exista hækkuðu í dag. Landsbankinn hækkaði skyndilega um 4,2% undir lok dags og hefur það áhrif á viðsnúning Úrvalsvísitölunnar.

Velta með hlutabréf var tæpir 18,7 milljarðar króna og þar af voru um 11,3 milljarður króna með bréf í Landsbankanum en mikill fjöldi viðskipta var með bréf í bankanum dag, þau stærstu þó upp á um 1,6 milljarða króna. Samkvæmt Markaðsvakt Mentis voru 527 viðskipti skráð með bréf í bankanum í dag.

Þá var velta fyrir tæpa 4,7 milljarða króna með bréf í Kaupþingi og um 900 milljónir í Straum en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur styrkst um 0,2% frá því í morgun og er gengisvísitalan nú 206,8 stig.