Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 34,6% í dag og stóð við lok markaða í 600 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan hækkaði um 0,8% á föstudag en eins og áður hefur komið fram tók vísitalan dýfu niður á við eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Straum í morgun og fór fljótlega eftir opnun í 625 stig.

Þá hefur vísitalan nú lækkað um 40% frá áramótum þegar hún var sett á stofn.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) lækkaði um 15,5% í dag og stendur nú í 223 stigum.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en Straumur leiddi lækkanir þegar félagið lækkaði um 98,8% í dag í um 190 þúsund króna viðskiptum. Þá lækkaði Össur um 11,75%.

Föroya banki hækkaði í dag um 0,5% og var þar með eina félagið sem hækkaði. Velta með bréf í félaginu var um 200 þúsund krónu í sex viðskiptum

Velta með hlutabréf var um 325 milljónir króna en þar af voru tæpar 232 milljónir með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir rúmar 90 milljónir króna með bréf í Marel en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf nam í dag rétt rúmum 9 milljörðum króna.