Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,8% og er 5.451 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 15,7 milljörðum króna.  Er þetta annar dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan hefur hækkað, en í gær fór hún upp um 3%. Árið hefur einkennst af fallandi gengi félaga á markaði og hefur Úrvalsvísitalan lækkað 13,72% það sem af er nýju ári.

„Dagurinn í dag var sá besti í rúm sex ár eða síðan 4. október árið 2001 (+6,11%) og þetta er jafnframt þriðji besti dagurinn frá upphafi - frá árinu 1993," segir greiningardeild Kaupþings. Um ástæðu hækkunarinnar segir hún að „fjárfestar gripu gæsina og festu kaup á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum og fjárfestingafélögum sem hafa fallið hvað mest í verði síðustu vikurnar."

Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] rauk upp um 17,9%, Spron [ SPRON ] um 9,7%, Flaga [ FL ] um 9%, Exista [ EXISTA ] um 7,8% og FL Group [ FL ] um 5,9%.

Icelandic Group [ IG ] lækkaði um 1,1% og er eina félag dagsins sem lækkaði.

Gengi krónu styrktist um 0,6% og er 126,2 stig.