Úrvalsvísitalan hækkaði um 3% og er 5.201 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 7,7 milljörðum króna. Í gær lækkaði Úrvalsvísitalan um 4,5% og fór á tímabili niður fyrir fimm þúsund stig, sem líta má á sem ákveðinn sálfræðimúr.

"Er þetta mesta hækkun vísitölunnar á einum viðskiptadegi það sem af er ári," segir greiningardeild Landsbanks um hækkun dagsins.

Breska vísitalan FTSE100 hækkaði um 4,8%, danska vísitalan OMXC hækkaði um 2,4%, norska vísitalan OBX hækkaði um 3,7% og sænska vísitalan OMXS hækkaði um 3,7%.

Eru markaðir að fylgja hækkunum í Wall Street auk þess var uppgjör Nokia fyrir fjórða fjórðung gott, ef marka má frétt Dow Jones fréttaveitunnar.

Skráðar kjarna eignir Existu [ EXISTA ]; Kaupþing [ KAUP ],Sampo, Storebrand og Bakkavör[ BAKK ], hækkuðu um tæplega 17,8 milljarða króna í viðskiptum dagsins, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst.

"Meðal hástökkvaranna á norrænum markaði var Storebrand, sem Exista og Kaupþing eiga samanlagt um 29% hlut í, en félagið hækkaði um 12,4% í viðskiptum dagsins. Þá hækkaði Sampo, ein stærsta erlenda eign Exista um 7,2%. Finnair sem er að hluta í eigu FL Group hækkaði um 3,9%," segir greiningardeild Landsbankans.

Jafnframt hækkaði JJB, sem Exista[ EXISTA ] á 29% hlut í félagi við breska fjárfestinn breska, Chris Ronnie, um 2,7%, samkvæmt Euroland.

Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] hækkaði um 11,8%, Spron [ SPRON ] hækkaði um 8,5%, FL Group [ FL ] hækkaði um 8,4%, Eik banki [ FO-EIK ] hækkaði um 6,8% og Century Aluminium [ CENX ] hækkaði um 4,9%.

365 [ 365 ] lækkaði um 1,6% og Icelandic Group [ IG ] lækkaði um 0,8%.

Gengi krónu styrktist um 1,3% og er 126,9 stig.