Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,87% og er 5.661 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni. Veltan nam 8.140 milljónum króna.

"Innlend hlutabréf hafa hækkað stöðugt undanfarna sjö viðskiptadaga og er því spurning hvort markaðurinn hafi botnað og áhugi fjárfesta hafi glæðst á ný," segir greiningardeild Glitnis.

Síðustu sjö daga hefur FL Group hækkað um 11,04%, Landsbankinn um 10%, Kaupþing banki um 9,25%, Flaga Group um 6,76% og Glitnir um 5,68%.

Stærstu einstöku viðskipti dagsins eru kaup Bjarna Ármannsonar, forstjóra Glitnis, í bankanum fyrir 905 milljónir króna. Einnig var keypt í Kaupþingi banka fyrir 755 milljónir króna á genginu 775 og Glitni fyrir 558 milljónir króna á genginu 18,6. Að auki tilkynntu Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 um sölu á bréfum í Bakkavör fyrir 515 milljónir króna og lækkaði þar með hlut sinn í 4,67% úr 5,14%.

Dagsbrún hækkar um 5% eftir mikla lækkun í gær

Dagsbrún hækkaði í dag mest allra félaga á markaði eða um 5,02% en í gær lækkaði gengi félagsins um 9,64% í kjölfar uppgjörs sem var langt undir væntingum greiningaraðila. Stærstu einstöku viðskiptin með bréf félagsins í dag voru fyrir 98 milljónir króna, á genginu 4,9 krónur á hlut. Heildar velta með bréf Dagsbrúnar var 173 milljónir í 23 viðskiptum.

Kaupþing hækkaði í dag um 3,37%, Alfesca hækkaði um 3,33%, Glitnir hækkaði um 2,76% og FL Group hækkaði um 1,79%.

Flaga var eina félagið sem lækkaði í dag, eða um 1,25%.

Gengi krónu veiktist um 0,61% og er 122,9 stig við lok markaðar.