Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,72% og er 5.843,03 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Straumur-Burðarás hækkaði mest félaga í Kauphöllinni í dag eða um 5,23%. Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið ræddi við búast við sviptingum í félaginu því í fjárfestingarbankanum stríða tvær fylkingar um völdin.

Önnur er Bjólfsfeðgar, sem hafa verið auka við eign sína í bankanum að undanförnu. Hin er Magnús Kristinsson og fjárfestar tengdir honum. Einn sérfræðinganna bjóst við mótleik af hálfu Magnúsar

Þá hækkaði FL Group um 3,09%, Atorka Group hækkaði um 2,59%, Landsbankinn hækkaði um 1,81% og Össur hækkaði um 1,80%.

Tryggingamiðstöðin lækkaði um 2,44%, Avion Group lækkaði um 1,36%, Flaga Group lækkaði um 0,72%, Mosaic Fashions lækkaði um 0,60% og Alfesca lækkaði um 0,50%.

Gengi krónunnar styrktist um 0,49% og er gengisvísitala hennar 126,60 stig, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Bandaríkjadalur lækkaði um 1,04% gangvart krónu og er skráður 71,18. Evra lækkaði um 0,34% gagnvart krónu og er skráð 91,91.