Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 0,4% í dag og stóð við lok markaða í 902 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan, sem stillt var á 1.000 stig um áramót þegar hún varð til fór í fyrsta skipti undir 900 stig á föstudag.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði í dag um 0,2% og stendur við lok markaða í 335 stigum.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en aðeins eitt félag, Straumur hækkaði í dag en félagið hækkaði um 9,7% og heldur þar með Úrvalsvísitölunni á floti annan daginn í röð.

Síðustu þrjá daga þar á undan hafði Straumur þó leitt lækkanir í Kauphöllinni en félagið hefur lækkað um 33,3% í þá rúmlega viku sem markaðir hafa verið opnir á nýju ári.

Velta með hlutabréf var tæpar 300 milljónir króna en þar af voru tæpar 184 milljónir króna með bréf í Marel.

Þá var velta fyrir tæpar 94 milljónir króna með bréf í Straum og tæpar 12 milljónir króna með bréf í Össur.