Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,67% og er 6.004 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Síðasti dagurinn sem úrvalsvísitalan var yfir sex þúsund stigum, var 23. mars. Þetta er tólfti viðskiptadagurinn í röð sem úrvalsvísitalan hækkar. Veltan nam 15.456 milljónum króna.

Tilkynnt var um 7.573 milljón króna utanþingsviðskipti með bréf Bakkavara Group á genginu 55 krónur á hlut fimm mínútur fyrir lokun markaðar og eru viðskiptin ekki verðmyndandi en gengi félagsins er 53,6 við lok markaðar. Ekki hefur komið fram hver keypti eða seldi.

?Þetta er mun örari hækkun en á fyrstu mánuðum ársins þegar að vísitalan hækkaði mest 6 daga í röð. Þá náði hún 25% hækkun frá áramótum um miðjan febrúar eða á 6 vikum. Í núverandi hækkunarferli hefur ICEX-15 hækkað um 12% á 12 dögum og er þá meðtalin hækkun dagsins í dag sem nemur 0,6%," segir greiningardeild Glitnis í Morgunkorni sínu.

FL Group hækkaði um 3,39%, Glitnir hækkaði um 2,59%, Landsbankinn hækkaði um 2,48%, Straumur-Burðarás hækkaði um 1,86% og Bakkavör Group hækkaði um 1,52%.

Marel lækkaði um 1,25% og Avion Group lækkaði um 0,59%.

Gengi krónu styrktist um 0,09% og er 123,8 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni.