Í dag hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,02% og endaði í 6.098,68 stigum í lok dags samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni

Veltan í Kauphöllinni nam rúmlega 5,1 milljarði króna í 431 viðskiptum sem eru töluvert meiri viðskipti en síðustu daga.

FL Group hækkar um heil 11,4% í dag í 149 viðskiptum, að mati sérfræðings er ekki ljóst hvað liggur að baki þessari miklu hækkun en svo virðist vera að Landsbankinn eða viðskiptavinur á þeirra vegum standi að baki stórum hluta þessara viðskipta. Engar tilkynningar eða fregnir af FL Group hafa borist í dag sem gætu skýrt þessa hækkun enn sem komið er.

Aðrar hækkanir eru Bakkavör sem hækkar um 2%, Alfesca um 1,7%, Atorka hækkar um 1,6% og Landsbankinn um 1,2%.

Þá veiktist gengi krónunnar um 0,55% % og stendur gengisvísitalan í 124,89 stigum. Krónan hefur verið að veikjast undanfarna daga en skýrsla alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings um kerfislega áhættu hagkerfisins hefur verið að hreyfa við krónunni auk þess sem töluverður þrýstingur hefur verið til lækkunar eftir styrkingarferli krónunnar undanfarið. Svo virðist vera að markaðsaðilar hafi verið að bíða eftir að krónan gengi til baka segja sérfræðingar.