Í dag lækkaði Úrvalsvísitalan þriðja viðskiptadaginn í röð og lækkaði um 0,65%. Endaði Úrvalsvísitalna í lok dags í 6.033,32 stigum. Veltan í Kauphöllinni nam rúmlega 1,8 milljarði króna í 249 viðskiptum.

Rauðar tölur voru einkennandi í dagslok en aðeins fjögur félög hækkuðu. Marel hækkaði um 1,97%, Actavis Group hækkaði um 0,78%, Avion Group um,0,3% og loks hækkaði færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum um 0,35%, en aðeins ein viðskipti voru að baki þeirri breytingu.

Þá veiktist gengi krónunnar um 1,3% og stendur gengisvísitalan í 124,2 stigum. Að mati sérfræðinga var það ný skýrsla alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings um áhættu af bankastarfsemi víða um veröld sem hreyfði við krónunni, en í skýrslunni er sagt að ennþá sé talsvert um kerfislega áhættu í íslenska hagkerfinu.

Íslensku viðskiptabankarnir fá reyndar góða einkunn í skýrslunni hjá Fitch, en þar segir að þeir hafi staðið af sér storminn sem fylgdi aukinni athygli erlendra greiningaraðila fyrr af árinu og standi nú afar traustum fótum. Hins vegar virðist hrós Fitch hafa gert lítið fyrir gengi bankanna í Kauphöllinni í dag, sem allir lækkuðu. Glitnir lækkaði um 1%, Landsbankinn um 0,78% og Kaupþing banki um 0,72%.