Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,52% og er 5.747 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni en úrvalsvísitalan hefur hækkað síðastliðna níu viðskiptadaga. Veltan nam 4.495 milljónum króna.

?Hækkunin undanfarna daga hefur einkum verið drifin áfram af hækkun á bréfum í Kaupþingi banka en bréf félagsins hafa hækkað um 9,5% á einni viku. Þar sem Kaupþing banki vegur langþyngst innan ICEX-15 er sjaldnast mikill munur á ávöxtun ICEX-15 og ávöxtun bréfa bankans," segir greiningardeild Glitnis.

Flaga Group hækkaði um 3,8%, Kaupþing banki hækkaði um 3,02% en stærstu einstöku viðskipti dagsins voru með bréf bankans fyrir um 1.115 milljónir króna á genginu 780, Össur hækkaði um 2,17%, Avion Group hækkaði um 2,15% og Alfesca hækkaði um 1,84%.

Tvö félög lækkuðu; Icelandic Group lækkaði um 2,5% og Atorka Group lækkaði um 0,83%.

Fjárfestar sýndu Landsbankanum mestan áhuga en 90 viðskipti voru með bréf bankans og heildar velta þeirra nam um 550 milljónum króna, gengi Landsbankans hækkaði um 1,3%. Næstflest viðskipti voru með Glitni, eða um 67 og nam heildarveltan 273 milljónum króna.

Gengi krónu styrktist um 0,71% og er gengisvísitalan 123,9 stig við lok markaðar.