Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,05% og er 5.432,13 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

?Athygli vekur að ef sumarið í ár er borið saman við sumarið í fyrra (1. maí - 17 júlí) eru viðskiptin í ár mun fleiri og eru hver viðskipti einnig hærri í krónum talið. Þannig voru um 10.900 viðskipti á fyrrgreindu tímabili í fyrra og nam veltan um 145 milljörðum króna en í ár voru um 16.700 viðskipti og nemur veltan tæplega 300 milljörðum króna. Í prósentum talið nemur veltuaukningin yfir sumarmánuðina um 105% og í fjölda viðskipta telur aukningin um 53%," segir greiningardeild Glitnis og bætir við:

"Segja má að markaðurinn sé líflegur í þessum samanburði en þó ber að taka fram að samanburðurinn tekur ekki tillit til breyttra aðstæðna á markaði."

Mosaic Fashions hækkaði um 1,18%, Landsbankinn hækkaði um 0,95%, Alfesca hækkaði um 0,47%, Össur hækkaði um 0,44% og Bakkavör Group hækkaði um 0,41%.

Atorka Group lækkaði um 1,59%, Avion Group lækkaði um 0,90%, Straumur-Burðarás og FL Group lækkuðu báðir um 0,60% og Flaga Group lækkaði um 0,56%.

Gengi krónu styrktist um 0,79% og gengisvísitalan er 130,59 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.