Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,21% í dag og er 5.641,31 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.

Atorka Group hækkaði um 2,70% og Bakkavör Group hækkaði um 2,49% en félagið mun birta uppgjör sitt næstkomandi fimmtudag og spáir greiningardeild Glitnis félaginu 5 milljón punda (666 milljónir króna) hagnaði á fyrsta ársfjórðungi.

Kaupþing banki hækkaði um 1,83% en bankinn mun birta ársfjórðungsuppgjör sitt á fimmtudaginn næsta og spáir greiningardeild Glitnis að hagnaður hans verði 14 milljarðar á tímabilinu.

Atlantic Petroleum hækkaði um 1,02% í dag en síðasta mánuðinn hefur félagið lækkað um 8,78% hins vegar hefur félagið hækkað um 36,88% frá áramótum. Landsbankinn skipar fimmta sætið yfir þau félög sem hækkuðu mest í dag og nam hækkunin 0,89%.

Fjögur félög lækkuðu og krónan styrktist

Fjögur félög skráð í Kauphöllina lækkuðu í dag. Flaga Group lækkaði um 1,23%, Vinnslustöðin lækkaði um 1,18%, Dagsbrún lækkaði um 1% og Icelandic Group lækkaði um 0,56%

Gengi krónunnar styrktist um 1,78% í dag og er gengisvísitalan 126,60 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Dollar lækkaði um 1,89% gagnvart krónu og er skráður 74,65 krónur. Evran lækkaði um 1,68% gagnvart krónu og er skráð 92,68 krónur.