Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hækkaði um 2,47% í dag og voru viðskipti með hlutabréf óvenjulega mikil eða um 42 milljarðar.

Eins og vb.is hefur greint frá í dag voru viðskipti með bréf í Landsbankanum fyrir rúmlega 11 milljarða og í Glitni fyrir um 20 milljarða en heimildir Viðskiptablaðsins herma að hér hafi verið um framvirka samninga að ræða.

Kaupþing [ KAUP ] hækkaði mest allra fyrirtækja í Kauphöllinni í dag eða um 5,4%. Þá hækkaði Exista [ EXISTA ] um 1,8% og Icelandair Group [ ICEAIR ] um 1,6%.

Mesta lækkunin, þriðja viðskiptadaginn í röð var hjá Icelandic Group [ IG ] eða um 9,7%. Þá lækkaði Eimskipafélag Íslands [ HFEIM ] um 5,9% og Century Aluminum [ CENX ] um 3%.

Fyrir utan Landsbankann [ LAIS ] og Glitni [ GLB ] voru mest viðskipti með bréf í Kaupþing eða um 6,8 milljarðar.

Gengisvísitala krónunnar var við lok markaða 153 stig og styrktist hún því um tæp 3% í dag.

Vakin skal athygli á því að í dag var breytt yfir í sumarviðskiptatíma í OMX Kauphöllinni.. Breytingin er því sumartími tekur gildi í Evrópu sem varir frá 31. mars til 24. október. Opnun samfelldra viðskipta mun vera klukkan 10:00 en lok viðskipta mun vera klukkan 15:23.