Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,44% í dag og er 6.727 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum Markaðsvakt Mentis. Veltan nam 36.192 milljónum króna. Á fyrstu þremur viðskiptadögum ársins hefur úrvalsvísitalan hækkað um 4,94%.

?Engin einhlít skýring er á mikilli hækkun hlutabréfaverðs þessa fyrstu viðskiptadaga ársins. Verðmat Citigroup á Kaupþingi, sem fjallað var um í gær, hefur vissulega ýtt undir hlutabréfaverð og áhrif lækkunar lánshæfismats S&P á íslenska ríkinu hafa verið að minnka.

Rekstur flestra fyrirtækja í Kauphöllinni er mjög alþjóðlegur og síminnkandi hlutfall umsvifa fyrirtækjanna er hér á landi. Fyrirséð stöðnun í hagkerfinu hér á landi á þessu ári hefur því hverfandi áhrif á framlegð og hagnað fyrirtækjanna. Sögulega hátt vaxtastig hér á landi hefur einnig takmörkuð áhrif á rekstur þeirra en gefur fjárfestum hins vegar kost á hárri áhættulausri ávöxtun,? sagði greiningardeild Glitnis í Morgunkorni.

Teymi hækkaði um 4,45%, Straumur-Burðarás hækkaði um 2,86%, Landsbankinn hækkaði um 2,14%, FL Group hækkaði um 1,85% og Glitnir hækkaði um 1,7%.

Icelandic Group lækkaði um 2,65%, Atlantic Petroleum lækkaði um 1,78% og Icelandair Group lækkaði 0,36%.

Gengi krónu veiktist um 0,22% og er 126 stig.