Úrvalsvísitalan lækkaði í dag um 16,6% og stóð við lok markaða í 3.396 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 4,8% í gær en tók dýfu strax við opnun markaða í morgun. Þar munaði mest um gengisfall Glitnis en Fjármálaeftirlitið hefur heimilað viðskipti með félagið á ný. Glitnir lækkaði um 71% í dag og var gengið við lok markaða í 4,55 á hvern hlut.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga, en aðeins þrjú félög, Föroya banki, Alfesca og Össur hækkuðu í dag

Velta með hlutabréf var tæpir 20 milljarðar króna og þar af voru um 9,4 milljarðar króna með bréf í Landsbankanum en í morgun fóru fram mikil viðskipti með bréf í félaginu.

Þá er velta fyrir um 7 milljarða með bréf í Kaupþingi, um 2,1 milljarður með bréf í Glitni og um 700 milljónir með bréf í Straum en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur veikst talsvert, þá sérstaklega seinni part dags, eða um 5,7% og er gengisvísitalan nú 197,5 stig. Gjaldeyrismarkaðir eru þó enn opnir.