Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,49% í 5436 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands, og leiddu fjármálafyrirtæki lækkunina.

Gengi bréfa Landsbankans lækkaði um 4,1%, Kaupþing banki og Straumur-Burðarás lækkuðu um 3% og Glitnir lækkaði um 1,2%. FL Group lækkaði um 1,6%.

Gengi bréfa Alfesca hækkaði um 0,6% en fyrirtækið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag og féll hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) um 42% í 5,3 milljónir evra úr 8,4 milljónum evra á sama tímabili fyrir ári síðan. Sérfræðingar segja uppgjörið í takt við væntingar.

Krónan gaf eftir í dag og hækkaði gengisvísitalan um 1,6% í 128,3 stig og veiktist krónan sem því nemur. Ákvörðun um stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í síðustu viku um 75 punkta í 12,25% hefur ekki orðið til verulegrar styrkingar krónunnar eins og búist var við.