Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,64% í dag og var 5890,61 stig við lokun markaðar.

Seðlabanki Íslands tilkynnti um hækkun stýrivaxta um 75 punkta í morgun í 11,5%. Aðrir vextir verða einnig hækkaðir um 75 punkta frá 1. apríl næstkomandi.

Greiningardeildir bankanna reiknuðu með 50 punkta hækkun, þó 75 punkta hækkun hafi ekki verið útilokuð. Gengi krónunnar styktist í kjölfar tíðindanna um ríflega 1%. Í lok dags nam styrking krónunnar 0,54%

Á hádegi hafði Úrvalsvísitalan lækkað um 3%. Úrvalsvísitalan fór úr 5998,83 stigum í byrjun dags og var lægst 5795,67 stig. Stuttu fyrir lokun fór þó að birta til og hafði Úrvalsvísitalan hækkað í 5890,61 stig við lokun, eins og fyrr segir.

Gengi bréfa Hampiðjunnar hækkaði um 1,19%. Alfesca hækkaði um 0,25% og Avion Group hækkaði um 0,25%.

Gengi bréfa Kaupþing banka lækkaði um 2,64%. Landsbankinn lækkaði um 2,63% og Actavis Group lækkaði um 1,82%. Einnig lækkaði gengi bréfa FL Group um 1,80% og Mosaic Fashions lækkaði 1,70%.

Dollar hækkaði um 1,32% gagnvart krónu og evra lækkar um 0,42% gagnvart krónu.