Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,9% og er 5.348 stig við lok markaðar. Gengi krónu veiktist um  1% og er 146,9 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Veltan á hlutabréfamarkaði nam sex milljörðum króna, veltan á skuldabréfamarkaði nam 33 milljörðum króna.

Atlantic Airways [ FO-ATLA ] hækkaði um 0,2% og Skipti hækkaði um 0,13%.

Glitnir [ GLB ] lækkaði um 3%, FL Group [ FL ] lækkaði um 2,9%, Exista [ EXISTA ] lækkaði um 2,8%, Kaupþing [ KAUP ] lækkaði um 2,1% og Century Aluminium [ CENX ] lækkaði um 1,6%.

Þrátt fyrir að vaxtahækkun Seðlabanka Íslands hafi verið í takti við væntingar markaðsaðila að mestu leyti, bráðst markaðurinn illa við tíðindunum.

„Að öllum líkindum má rekja þessi viðbrögð markaða til vonbrigða með að ekki hafi örlað á neinum aðgerðum til að sporna við  erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum," segir greiningardeild Glitnis.

„Á undanförnum vikum hafa byggst upp væntingar þess efnis að aðgerðir Seðlabanka og stjórnvalda væri í burðarliðnum og að þær yrðu jafnvel kynntar í dag samhliða vaxtaákvörðun Seðlabankans. Eftir að rökstuðningur Seðlabankans fyrir ákvörðuninni var birtur nú klukkan 11 án nokkurrar tilkynningar um aðgerðir hafa markaðir tekið enn skýrari stefnu til lækkunar sem gefur skýrt til kynna þessi vonbrigði.

Ljóst er að markaðir líkt og lánshæfismatsfyrirtækin halda nú áfram að bíða þess að aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans verði kynntar. Af orðum forsætisráðherra og talsmanna Seðlabankans undanfarnar vikur má skila að slíkar aðgerðir séu í farvatninu. Seinagangur í þessum efnum mun skaða bæði fjármálakerfið, fjármálastöðugleika og trúverðugleika stjórnvalda. Þá er ljóst að aðgerðaleysi mun einnig hafa mikla þýðingu fyrir lánshæfis ríkissjóðs sem er nú á neikvæðum horfum hjá þremur stærstu lánshæfismatsfyrirtækjunum, Moody´s, Fitch og S&P."