Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í viðskiptum dagsins. Hún lækkaði um 0,2% og er 646 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Velta á hlutabréfamarkaði nam 63 milljónum. Mestu viðskiptin voru með álrisann Century Aluminum eða 39 milljónir króna.

Atorka Group hækkaði um 10% en félagið stefnir af hlutabréfamarkaði og Össur hækkaði um 0,3%.

Century Aluminum lækkaði um 7,4%, Bakkavör lækkaði um 2,9%, Marel lækkaði um 1,4%, Eimskip lækkaði um 0,8% og Föroya banki lækkaði um 0,3%.

Hlutabréf á Norðurlöndunum lækkuðu mikið í kjölfarið á að Seðlabanki Evrópu og Danmerkur lækkuðu stýrivexti um 50 punkta, sem olli markaðnum vonbrigðum, samkvæmt frétt Dow Jones. Markaðurinn vonaðist eftir meiri lækkun til að komast til móts við hægagang í evrópsku efnahagslífi.

Skandinavíska hlutabréfavísitalan OMXN40 féll um 6,9% og er 690 stig og norska vísitalan OBX lækkaði um 11% og er 213 stig, samkvæmt fréttinni.