Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði í dag um 1,2% og stóð við lok markaða í 3.851 stigi samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun í morgun og hafði um tíma lækkað um tæp tvö prósent en undir lok dags tók hún lítillega við sér. Þetta er svipað og gerðist í gær en þá hafði Úrvalsvísitalan lækkað mun meira og hafði við lok markaða lækkað um 1,7%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Velta með hlutabréf var þónokkur miðað við síðustu daga og vikur eða um 10,9 milljarðar króna og var stærsti hluti hennar með bréf í fjármálafyrirtækjum.

Þar af voru rúmlega 5,6 milljarðar króna með bréf í Kaupþing [ KAUP ], rúmlega 2,6 milljarðar króna með bréf í Glitni [ GLB ] og um 1,2 milljarðar með bréf í Landsbankanum [ LAIS ].

Þá var nokkur velta með bréf í öðrum fjármálafyrirtækjum. Til dæmis var velta fyrir um 440 milljónir með bréf í Exista [ EXISTA ] annars vegar og Straum [ STRB ] hins vegar en minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Veiking krónunnar náði enn einu hámarkinu í dag þegar gildi gengisvísitölunnar fór um tíma í 172,8 stgi. Gildið er nú 172 stig og hefur krónan því veikst um 1,2% frá opnun gjaldeyrismarkaða í morgun.

Gjaldeyrismarkaðir eru þó enn opnir.