Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 3% í dag og stóð við lok markaða í 904 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan lækkaði um 1,1% í gær en hefur hækkað í allan dag. Mestu munar þar um 54,5% hækkun Eimskipafélagsins. Sáralítil viðskipti eru þó á bakvið hækkunina eða aðeins 150 þúsund krónur.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði um 1,5% og stendur nú í 313 stigum.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en ekkert félag lækkaði í dag.

Velta með hlutabréf var um 265 milljónir króna en þar af voru rúmar 157 milljónir króna með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir rúmar 67 milljónir króna með bréf í Marel og tæpar 28 milljónir króna með bréf í Straum.

Velta með skuldabréf nam í dag 6,6 milljörðum króna en mesta veltan var með bréf í flokki RIKB 10 0226 eða um 1,8 milljarðar króna.