Samþykkt var á fundi samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík að hefja undirbúning að málaferlum gegn fyrrverandi stjórn, stjórnendum og endurskoðendum sjóðsins. Þórunn Einarsdóttir, formaður stjórnar stofnfjáreigenda, segir að næstu vikur fari í undirbúning og hafa stofnfjáreigendur verið beðnir um að skrá sig annaðhvort hjá stjórninni eða lögmanni stjórnarinnar.

Þórunn telur líklegt að fjöldi mála verði höfðaður gegn þessum aðilum. Mál stofnfjáreigenda eru af ýmsum toga þar sem misjafnt er hvernig staðið hefur verið að fyrirkomulagi endurgreiðslna á lánum og afskriftum þeirra.