Tilboð barst frá Þorbirni hf. um að greiða upp höfuðstól á víxlum sem fyrirtækið var í ábyrgðum fyrir. Það var síðan dregið til baka, en í millitíðinni hafði Byr leyst til sín féð, rúmlega 168 milljónir króna.

Útgerðarfélagið Þorbjörn hf. hefur höfðað mál gegn Byr og krefst þess að fá endurgreiddar rúmlega 168 milljónir króna er rekja mál til víxla sem Þorbjörn var í ábyrgð fyrir. Víxlana mátti rekja til kaupa á hlutabréfum, m.a. í Sparisjóðabankanum. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær en Byr var þó fyrst stefnt vegna málsins í mars á þessu ári, að því er Sigurbjörn Þorbergsson hrl., lögmaður Þorbjörns hf., greindi Viðskiptablaðinu frá.

Varðveitti fé

Í byrjun janúar 2010 varðveitti Byr um 168 milljónir króna á reikningi fyrir Þorbjörn hf. Ástæða fjárvörslunnar var sú að Þorbjörn hafði gefið út tvo víxla sem samþykktir voru til greiðslu af Gnúpverja ehf., og mátti rekja til fyrrnefndra hlutabréfakaupa. Annar var upp á tæplega 81 milljón en hinn upp á 87,4 milljónir, að því er segir í stefnu Þorbjarnar hf. Byr stefndi síðan Gnúpverja og Þorbirni vegna skulda er rekja mátti til fyrrnefndra víxla. Málið var þingfest 10. desember í fyrra. Í kjölfar málsóknarinnar gerði Þorbjörn hf. Byr munnlegt tilboð á þá leið að fyrirtækið myndi greiða upp höfuðstól víxlanna. Var þetta tilboð staðfest með tölvubréfi frá Byr 30. desember í fyrra, samkvæmt stefnu.

Hinn 5. janúar á þessu ári óskuðu forsvarsmenn Þorbjarnar eftir því að að fá staðfestingu á því frá Byr, að ef ekki yrði gengið að tilboðinu um greiðslu höfuðstóls víxlanna þá myndi Byr endurgreiða Þorbirni fyrrnefndar 168 milljónir.

Afturkallaði tilboð

Hinn 11. janúar afturkallaði Þorbjörn tilboð sitt um greiða höfuðstól víxlanna til baka og „krafðist þess að stefndi greiddi fjárhæðina inn á reikning s tefnanda“, eins og orðrétt segir í stefnu. Var a f t u r k ö l l - un á tilboðinu byggð á mati lögmanns um að vafi léki á því að Byr ætti gilda víxilkröfu á fyrirtækið. Daginn eftir var Þorbirni tilkynnt um að stjórn Byrs og lánanefnd hefði samþykkt tilboð Þorbjarnar og því væru víxlarnir fullgreiddir. Málið á hendur Þorbirni yrði þar með fellt niður.

Þeirri ráðstöfun var mótmælt harðlega af hálfu Þorbjarnar. Um þetta segir meðal annars í stefnu: „Stefnandi svaraði strax tölvupósti stefnda og mótmælti ráðstöfun stefnda á fjármunum sem heimildarlausri, stefnandi hafi afturkallað tilboð sitt um greiðslu deginum áður og tilboðið væri því ekki gilt lengur,“ eins og orðrétt segir í stefnu.

Sigurbjörn sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann vissi ekki hvenær málið yrði til lykta leitt fyrir dómstólum.