*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 17. ágúst 2021 19:11

Í mál við SPAC félag Ackman

Deilt er um hvort sérhæfð yfirtökufélög séu í raun fjárfestingafélög sem ættu þ.a.l. að lúta auknu eftirliti.

Ritstjórn
Bill Ackman.
epa

Höfðað hefur verið mál gegn Pershing Square Tontine Holdings, sérhæfðu yfirtökufélagi (SPAC) sem rekið er af vogunarsjóðsstjóranum Bill Ackman. Kann umrætt mál að draga dilk á eftir sér fyrir sérhæfð yfirtökufélög vestanhafs sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur. The New York Times greinir frá.

Málatilbúnaður sóknaraðila, sem Robert Jackson, fyrrum yfirmaður hjá Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna, og John Morley, lagaprófessor við Yale háskóla, eru í forsvari fyrir, byggir á því að engin starfsemi eigi sér stað í sérhæfða yfirtökufélagi Ackman. Þar af leiðandi sé um fjárfestingafélag að ræða og ætti sérhæfða fjárfestingafélagið að falla undir sömu lög og slík félög.

Ef svo færi að sérhæfð yfirtökufélög yrðu flokkuð sem fjárfestingafélög myndi það geta haft mikil áhrif á geirann þar sem að það gerði þeim sem starfa innan fjárfestingabransans erfiðara um vik fyrir að hafa aðkoma að sérhæfðum yfirtökufélögum.

Yfirvöld hafa þegar beint kastljósi sínu að sérhæfðum yfirtökufélögum með aukna fjárfestavernd í huga. Þá hafa sérhæfð yfirtökufélög í auknum mæli þurft að verjast hóplögsóknum fyrrverandi hlutahafa félaga sem tekin hafa verið yfir.

Um 600 sérhæfð yfirtökufélög hafa verið skráð á markað vestanhafs undanfarið ár og yfirtökur þar sem slík félög koma við sögu eru metnar á um 700 milljarða dala á tímabilinu. Lagasérfræðingar hafa varpað fram spurningum þess efnis hvort sérhæfð yfirtökufélög séu notuð til þess að forðast hin ýmsu lög sem ná yfir fjárfestingafélög -sjóði. Ofangreindri lögsókn á hendur sérhæfðs yfirtökufélags Ackman er einmitt ætlað að varpa ljósi á hvort svo sé eður ei.