Steinunn Guðbjartsdóttir hrl, formaður slitastjórnar Glitnis, hefur staðið í ströngu síðustu misseri enda annir miklar í starfinu. „Yfirleitt er slitameðferð félaga ekki í kastljósi fjölmiðla, svona í venjulegu árferði, en það má segja að nú sé annað uppi á teningnum,“ segir Steinunn.

Á dögunum kynnti slitastjórn Glitnis stefnu sem þingfest hefur verið í New York í Bandaríkjunum gegn stjórnendum og forsvarsmönnum stærstu hluthafa Glitnis áður en bankinn féll. Er hópurinn sem stefnt hefur verið kallaður „klíka“ Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem sagður er hafa „rænt“ bankann innan frá, einkum síðasta árið áður en bankinn féll. Stefnan og málatilbúnaðurinn allur er afrakstur vinnu alþjóðlega rannsóknarfyrirtækisins Kroll. Blaðamaður tekur Steinunni tali inni í sérútbúnu yfirheyrsluherbergi þar sem upptökumyndavél er við enda herbergisins og hljóðnemar áfasti við borðið.

Hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Sigurður G. Guðjónsson hafa gagnrýnt Steinunni harðlega fyrir fyrrnefnda stefnu á hendur fyrrverandi hluthöfum og stjórnendum bankans. Í stefnunni er krafist skaðabóta upp á 250 milljarða króna. Steinunn segir að það verði að skoða gagnrýni þeirra Ragnars og Sigurðar í því ljósi að þeir eru verjendur manna sem slitastjórnin hefur nú stefnt. Ragnar er lögmaður Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Sigurður er lögmaður Pálma Haraldssonar, fyrrverandi eiganda Fons.

„Í maí 2009 réðum við fyrirtækið Kroll til þess að annast rannsókn á búi Glitnis. Fyrirtækið fékk frjálsar hendur um hvernig það vann sína vinnu, sem öðrum fremur fólkst í því að fara yfir viðskipti bankans fyrir fall hans og greina okkur svo frá því hvað fyrirtækið teldi að hefði gerst og hvað væri best að gera í framhaldinu til að gæta hagsmuna kröfuhafa. Stefnan sem nú hefur verið þingfest í Bandaríkjunum er afrakstur vinnu Kroll og sú ákvörðun að fara með málið áfram þar í landi byggist á ráðgjöf frá Kroll og erlendum lögfræðingum okkar. Mér finnst eðlilegast að meta gagnrýnina frá þessum lögmönnum, sem ég held raunar að séu þeir einu sem hafa gagnrýnt það að stefnt sé í New York, út frá þeim forsendum að þeir eru lögmenn manna sem stefnt hefur verið. Ég get að öðru leyti ekki tjáð mig um þetta mál. Það er nú í ákveðnum farvegi og verður til lykta leitt fyrir dómstólum.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu