Verslun Íslendinga á netinu hefur aukist nokkurn veginn jafnt og þétt á árabilinu 2004 til 2019, þó merkja megi samdrátt á árunum 2007 til 2010 vegna efnahagshrunsins að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands . Nærri 80% Íslendinga lentu í vandræðum með verslun í gegnum netið á síðasta ári, sem er hæsta hlutfallið í Evrópu.

Nánast stöðug aukning hefur verið í netverslun hér á landi frá árinu 2011, fyrir utan árin 2012 og 2013, en reyndar var gögnum ekki safnað fyrir árin 2015 og 2016. Þannig höfðu 59% Íslendinga verslað á netinu fyrstu þrjá mánuði ársins 2019, en fyrir allt árið var hlutfallið nærri átta af hverjum tíu.

Nærri því sama hlutfall, eða 76,8%, þeirra lentu í einhvers konar vandræðum við netkaupin, til að mynda bilun í netkerfi verslunar, varan berist síðar en áætlað var, kostnaður hærri eða röng eða gölluð vara afhent.

Þetta er hækkun frá árinu 2017 þegar um tveir þriðju lentu í vandræðum, og mun hærra en 2009 þegar það var innan við 10%. Var hlutfallið langhæst í allri Evrópu, Malta var næst hæst, síðan kom Bretland og Svíþjóð. Lægsta hlutfallið var hins vegar í Sviss, á Spáni og Portúgal.

Netverslun var útbreiddust í bæði Bretlandi og Danmörku, þar sem 87% Breta höfðu verslað á netinu á síðasta ári, en 84% Dana. Hjá Íslendingum höfðu flestir, eða 78,6% keypt tónlist eða kvikmyndir af netinu á árinu 2019, en 7,18% keypt aðgöngumiða á viðburði og 69,9% keypt farmiða, greitt fyrir bílaleigubíla eða eitthvað annað ferðatengt.

Hins vegar höfðu fæstir keypt lyf, eða 12,4% og 17,2% höfðu keypt mat eða hreinlætisvörur, en það er svipað mynstur og árin 2017 og 2018, þegar 9,5% keyptu lyf hvort ár fyrir sig, en í kringum 70% keypt tónlist og eða kvikmyndir eða aðgöngumiða á viðburði í gegnum netið.