„Í mínum huga er hagfræði trúargrein,“ sagði Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartar framtíðar, á fundi VR og Verkalýðshreyfingar Akraness um vexti og verðtryggingu í gær. Það kristallaðist meðal annars í því að tveir framsögumenn í röð töluðu úr sitthvorri áttinni. Á fundinum var tekist á um vexti og verðtryggingu og voru afar skiptar skoðanir meðal fundarmanna á málefninu.

Guðlaug sagði að stefna Bjartrar framtíð væri að stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem myndi hafa í för með sér að vextir lækki, verðtrygging verði lögð af og rekstrarskilyrði fyrirtækja batni og Íslendingar njóti frjálsra alþjóðaviðskipta. Íslendingar geti tekið vexti á sambærilegum kjörum og almenningur í Evrópu, og koma ætti í veg fyrir að fjármálakerfið hrynji.

Flokkurinn hefði talað fyrir endurskoðun á peningamálum hér á landi. Tvöfalt peningakerfi væri hér á landi, eitt hjá þeim sem þiggðu laun í krónum og hitt hjá þeim sem hefðu tekjur og gætu tekið lán í erlendri mynt. Íslendingar þyrftu aðgang að stærra hagkerfi, líkt og dæmin sýndu með komu Costco til landsins.