Lögmennirnir Eyjólfur Ármannsson og Gisli Tryggvason ákváðu fyrir áramót að söðla um og hefja rekstur á eigin lögmannsstofu. Lögmannsstofan heitir VestNord lögmenn og hóf starfsemi um síðustu áramót

Þeir hafa báðir nokkuð langa starfsreynslu sem lögfræðingar. Gísli var áður talsmaður neytenda og framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna. Eyjólfur hefur síðustu ár unnið hjá norsku bankanum DNB, einum af stærstu bönkum Norðurlanda og einum stærsta shipping banka heims. Hér heima hefur hann m.a. starfað í fjármálaráðuneytinu, fjármálaeftirlitinu og hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra við saksókn efnahagsbrota.

Þeir segja markmiðið vera að veita alhliða lögmannsþjónustu, en verða með sjö sérstök áhersluatriði. Það eru auðlinda- og umhverfisréttur, efnahagsbrot, Evrópuréttur, félaga og fjármálaréttur, mannréttindi, neytendamarkaðsréttur og ríkisréttur og vinnumarkaðsréttur.

Aðspurðir um það hvort til standi að stækka reksturinn og ráða til sín fulltrúa, segir Eyjólfur það óráðið. „Við rennum svolítið blint í sjóinn með það enn sem komið er, en er það stefnan í framtíðinni, Við erum þó þegar búnir að fá starfumsókn frá lögfræðingi um fulltrúastöðu,“ segir Eyjólfur.

Eins og fyrr segir tók lögmannsstofan til starfa um áramót og Gísli segir að það hafi verið í mörg horn að líta. „Það er nóg að gera þegar maður er að setja upp fyrirtæki. Þó við séum með mikla reynslu af þessu sem ég nefndi þá höfum við ekki reynslu af því að vera í forsvari fyrir eigið fyrirtæki,“ segir Gísli.

Þeir félagar segja að nafnið VestNord endurspegli áherslu sem þeir ætli að hafa til langrar framtíðar. „Við leggjum áherslu á tengsl okkar við fimm vestnorræn lönd. Ísland er auðvitað augljóst. Svo er Færeyjar og Grænland sem eru vaxandi svæði í viðskiptum og samskiptum við Ísland. Svo höfum við mikil tengsl við hin tvö vestnorrænu ríkin. Danmörku þar sem ég bjó í mörg ár og Noreg þar sem Eyjólfur bjó í mörg ár. Við tölum dönsku og norsku reiprennandi og viljum nýta okkur þá sérstöðu og leggja áherslu á þetta vestnorræna svæði sem er i deiglunni,“ segir Gísli.