*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 12. janúar 2020 13:09

Í okkar höndum að milda niðursveifluna

Mikilvægt að sáttin sem lífskjarasamningarnir hafa skapað verði ekki rofin með óskynsamlegum samningum á opinbera markaðnum.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir mjög mikilvægt að samningar á opinberum markaði verði í takti við lífskjarasamningana ellegar sé voðinn vís.

„Á þessu ári er alveg ljóst að við erum að fara í niðursveiflu en viðbrögð okkar, vinnumarkaðarins og stjórnvalda, á næstu misserum munu ákvarða hversu djúp sú niðursveifla verður. Það er í okkar höndum að taka réttar ákvarðanir til milda niðursveifluna og tryggja að við getum farið að skapa störf á nýjan leik í stað þeirra uppsagna sem hafa verið einkennandi síðustu misseri. Stærsti þátturinn þar í mínum huga er að ljúka kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.

Á almennum vinnumarkaði hefur verið lokið við um 95% samninga á grundvelli lífskjarasamninganna. Það ríður mjög mikið á að ekki verði gengið lengra í samningum við opinbera starfsmenn en gert var á almenna markaðnum. Ef það tekst þá tel ég að við séum í dauðafæri til þess að breyta undirliggjandi eðli hagkerfisins til lengri tíma, sem til að mynda hefur birst í nýlegum vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands. Nafnvextir á Íslandi eru í lægstu gildum. Forsendan fyrir þessu er að sáttin sem lífskjarasamningarnir hafa skapað verði ekki rofin með óskynsamlegum samningum á opinbera markaðnum."
Undanfarin ár hefur hið opinbera oftar en ekki leitt launaþróunina í landinu.

„Sporin hræða," segir Halldór Benjamín. „Undanfarna tvo áratugi hefur verið togstreita á milli  opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Ástæðan fyrir því að lífskjarasamningarnir hafa haldið jafnvel og raun ber vitni þegar hann er borin saman við þróun launavísitölu er að við erum að fara í niðursveiflu. Í niðursveiflu er eðlilegt en að ekki sé gengið lengra en sem kjarasamningum nemur. Á sama tíma hlýtur það að vera heppilegasti tíminn fyrir samningamenn hins opinbera til þess að fylgja að öllu leyti því frumkvæði sem búið er að marka á almenna markaðnum. Það gengur ekki upp að launahækkanir á opinberum vinnumarkaði séu umfram almenna vinnumarkaðinn og allra síst þegar það er samdráttur, uppsagnir og hagræðing á almennum vinnumarkaði.

Ég er bjartsýnn maður að upplagi og það er margt sem bendir til þess nálgun samningamanna hins opinbera sé með þeim hætti að kvika ekki frá lífskjarasamningunum, sem ég tel að sé mikilvægasta efnahagsmálið. Að þessu sögðu þá er ekki einungis hægt að vísa ábyrgðinni á samningamenn hins opinbera. Hér verða pólitíkusar, bæði á sveitarstjórnarstigi og ráðherrar í ríkisstjórninni að standa í lappirnar."

Stjórnendur fyrirtækja stóðu á bremsunni á síðasta ári. Spurður hvort það hafi átt sér eðlilegar skýringar svarar Halldór Benjamín: „Ég hef mikla trú á íslensku atvinnulífi og að ákvarðanir stjórnenda fyrirtækja í aðdraganda kjarasamninga á síðasta ári hafi ekki bara verið skiljanlegar heldur rökréttar. Það ríkti óvissa á vinnumarkaði og mikið talað um verkföll.  Í því umhverfi er eðlilegt að halda að sér höndum. Nú er búið að eyða þeirri óvissu og þess vegna hef ég trú á því að stjórnendur íslenskra fyrirtækja sjái tækifæri til að spýta í lófana og sækja fram með það að markmiði að leggja  grunninn að því að þessi niðursveifla verið skammvinn og geti á sem skemmstum tíma breyst í hóflega uppsveiflu."

Halldór Benjamín telur að enn sé svigrúm til vaxtalækkana hjá Seðlabankanum.

„Við hljótum að horfa á raunvaxtastigið í þessu samhengi og miðað við það þá er rými til frekari vaxtalækkana. Það er reyndar ekki nóg að tala bara um stýrivexti. Seðlabankinn þarf líka að slaka á klónni gagnvart fjármálafyrirtækjum landsins þar sem verulega skortir á getu þeirra til útlána, sem meðal annars birtist í krónuskorti í landinu. Þetta veldur miklum búsifjum í mörgum atvinnugreinum. Við getum líka nefnt bankaskattinn sem er ósanngjarn og óskilvirkur skattur sem bitnar á heimilum og fyrirtækjum í landinu."