*

miðvikudagur, 11. desember 2019
Innlent 3. júní 2017 12:01

Í öldudal íslenskrar krónu

Á meðan hinn almenni borgari nýtur sín í sólargeislum íslensks góðæris kvarta útflutningsfyrirtæki sáran undan fordæmalausri styrkingu krónunnar.

Ásdís Auðunsdóttir
Birgir Ísl. Gunnarsson

Bölvuð eða blessuð sé íslenska krónan! Landsmenn njóta þess að ræða um gjaldmiðilinn sinn líkt og þeir njóta þess að ræða veðrið og undanfarið hefur verið af sérstaklega miklu að taka. Þrátt fyrir afnám hafta heldur krónan áfram að styrkjast og hefur á sumum mælakvörðum aldrei verið sterkari.

Ástandið veldur því að laun Íslendinga eru snarlega orðin þau hæstu í Evrópu sem gerir hinum almenna borgara t.d. kleift að flytja inn ódýrar glæsibifreiðar á áður óþekktum kjörum og eyða svo restinni í sólarlandaferðir. En á meðan almúginn nýtur sín í sólargeislum íslensks góðæris kvarta útflutningsfyrirtæki sáran og segja vörur sínar ekki lengur samkeppnishæfar. Full ástæða er til að líta ástandið alvarlegum augum og að mati greiningardeildar Arion banka er íslenska krónan nú orðin sterkari en hagkerfið ræður við til lengdar og fátt virðist benda til þess að hún komi til með að veikjast á næstunni.

Sambandi Íslendinga við gjaldmiðil sinn verður í besta falli lýst sem sveiflukenndu. Krónan er göfug eina stundina, táknmynd fullveldis okkar sem mætir á ögurstundu til að bjarga okkur frá verstu örlögum alheimskreppunnar með sveigjanleika sínum. Gallagripur hina stundina þegar hún tekur þjáningarfullar og öfgafullar upp- eða niðursveiflur þar sem íslenskt viðskiptalíf sveiflast með eins og lauf í vindi.

Bjargvættur og gallagripur 

Ísland er minnsta myntsvæði í heimi og sveiflur krónunnar geta verið ofsafengnar eins og Íslendingar fengu t.d. að kynnast í lok árs 2008. Tiltölulega skyndilega urðu laun Íslendinga hlægilega lág, innfluttar vörur hækkuðu og utanlandsferðir urðu munaður sem ekki allir gátu leyft sér. Útflutningsfyrirtæki gátu hins vegar séð ástæðu til að gleðjast enda samkeppnistaðan góð og gríðarlega hagstætt að geta selt afurðir sínar í erlendum gjaldmiðlum. Þegar litið er yfir farinn veg virðast sjaldan allir hafa verið sáttir með gengi íslensku krónunnar og sífellt er rætt um æskilegan stöðugleika gjaldmiðilsins sem segja má að hafi þó ekki þekkst að neinu marki frá aldamótum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.