Íslenski menntasprotinn Mussila hefur verið í örum vexti undanfarin misseri. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 með það að leiðarljósi að kenna börnum tónlist í gegnum leikinn Mussila Music sem skólar í 19 löndum nota. Nú er fyrirtækið komið í samkeppni við tungumálaöpp á borð við Duolingo með nýjustu viðbótinni, Mussila WordPlay.

Mussila WordPlay er lestrar- og málörvunarapp fyrir börn. Appið kom nýverið út í 155 löndum á App Store og Google Play, en um er að ræða nýtt app á vegum Mussila og er fyrirtækið þar með farið í samkeppni við öpp á borð við Duolingo. „Appið hjálpar börnum að auka orðaforðann sinn og þjálfa tungumálið og málskilning. Fyrsta tungumálið í WordPlay er enska en seinna meir munu fleiri tungumál verða í boði. Í appinu eru æfingar, krossgátur, spurningar, sögur og fleira.“

„Við Hilmar Þór Birgisson, framleiðslustjóri Mussila, fórum í stefnumótunarvinnu í upphafi árs 2021 og kortlögðum hvernig Mussila gæti stækkað og skalað upp til framtíðar." Jón segir grunn Mussila ekki endilega liggja í tónlistinni, heldur frekar í tæknivinnslunni á bak við vörur fyrirtækisins. „Við erum núna komin með tónlistina og tungumálið, en í framtíðinni ætlum við að taka aðrar greinar eins og stærðfræði eða kóðun." Hann segir að Mussila geti þannig orðið að stafrænu fræðslusetri á komandi árum

Hann segir að Mussila WordPlay bætist einfaldlega við áskriftina að Mussila á App Store eða Google Play. Það sama eigi við um skólaútgáfuna af Mussila. Þannig þarf fyrirtækið ekki að fara aftur í þá vinnu að búa til skólaaðgang að WordPlay. „Við erum í raun að tvöfalda vöruframboðið okkar á einu bretti. Nú hefur hver og einn skóli meiri þörf á Mussila, sem er ekki lengur bara tónlistarkennari heldur líka tungumálakennari."

Sveitarfélögin taki af skarið

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila, segir að börn hafi ekki fundið fyrir hvatningu í námi. Helmingi barna leiðist í skólum. Sumir segja að þú þurfir bara að leggja hart að þér og læra, en hvað með að gera það skemmtilega?" Hann segir heimsfaraldurinn hafa hraðað stafrænni byltingu í menntakerfinu. „Í stað þess að prenta út nýjar kennslubækur á hverju ári, eða nota sömu kennslubækur og foreldrar okkar voru með, þá getum við verið með nýtt efni sem tekur mið af öllum breytingum."

Hann segir að sveitarfélögin þurfi að taka af skarið í stafrænni byltingu. Kópavogsbær hafi tekið fyrstu skrefin, en nú sé pressa á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög að fara í sömu vegferð. „Stafræna byltingin er hafin á Norðurlöndunum og að einhverju leyti í Bretlandi líka, en er aðeins hægari annars staðar í Evrópu."

Nánar er fjallað um Mussila í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .