*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. júlí 2017 13:10

Í samkeppni við ferðaskrifstofur

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO, segir tækniframfarir kalla á miklar breytingar en fyrirtækið er þegar farið að minnka verslunarrými sitt.

Höskuldur Marselíusarson
Eva Björk Ægisdóttir

Sigurður Brynjar Pálsson tók við sem forstjóri BYKO sumarið 2014, eftir að hafa klifið upp nánast allan metorðastigann hjá fyrirtækinu, en ferillinn hófst með sumarstarfi árið 1998.

Samkeppni við Costco um ráðstöfunartekjur

Sigurður segir mögulegt að of mörg fyrirtæki einblíni á framlínuna, það er markaðsstarf og sölu, í stað þess að horfa nægilega á alla aðfangakeðjuna. Segist hann trúa því að það hljóti að breytast með aukinni alþjóðavæðingu og nú með tilkomu Costco. Samt sem áður segir hann BYKO ekki finna mikið fyrir stórversluninni, enda ekki mikil skörun á milli fyrirtækjanna þó einhver sé.

„Hins vegar get ég sagt að við höfum meiri samkeppni um fjármagn, það er þetta gæti verið spurning um ráðstöfunartekjur fólks,“ segir Sigurður.

„Af sama meiði segjum við að við séum í harðri samkeppni við ferðaskrifstofur, því framkvæmdagleði fólks eykst þegar sólin skín, það fer að bera á pallinn, og byggja nýja, en þegar við fáum svona tiltölulega blautt sumar eins og núna þá breytist forgangsröðunin, fólk frestar því að byggja pallinn og kaupir sér ferð til útlanda.“

Ekki meiri breyting í 100 ár

Sigurður segir miklar breytingar fram undan í verslunarrekstri í heiminum með óljósari landamærum og tækniframförum.

„Verslun og þjónusta er á krossgötum í dag og horfa þarf hundrað ár aftur í tímann til að sjá aðrar eins breytingar eiga sér stað. Jafnframt er komin breytt kauphegðun, sú kynslóð sem er að koma upp núna velur það sem hentar sér best hverju sinni, sem þýðir minni tryggð viðskiptavina,“ segir Sigurður. Eins og stendur er BYKO með níu verslanir, þar af þrjár sérvöruverslanir.

Minnka verslanir á Akureyri og Selfossi

„Ætli við séum ekki með 20 til 25% markaðshlutdeild, en það er erfitt að átta sig á því, enda höfum við engar óyggjandi tölur sem gefa okkur það til kynna og við störfum á breiðum markaði. Það er ekki í kortunum að opna fleiri verslanir, heldur nýta okkur tæknina, vefverslanir og öflugt flutninganet á landinu. Verslunarrými hefur minnkað töluvert á Íslandi, og mun fermetrum fækka áfram.

Við erum með um 50 þúsund fermetra í dag, en við höfum verið að minnka hjá okkur líka. Við minnkuðum verslun okkar úti á Granda um 45% og erum við að vinna að breytingum á Akureyri og Selfossi, þar sem við erum til dæmis að fá aðra aðila inn í verslanir okkar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta gerst áskrifendur hér.