Vörumerkjastofan brandr hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlegu vörumerkjastofuna Saffron Brand Consultants. Samningurinn er gagnkvæmur og felur í sér samstarf, samvinnu og öflun viðskiptatækifæra tengdum ráðgjafaverkefnum í vörumerkjastjórnun og stefnumótun á sviði orkumála, samgangna og sjálfbærni um allan heim.

,,Þetta er afar ánægjulegt og ákveðin viðurkenning á þeirri þekkingu og sérhæfingu sem við höfum aflað okkur. Að baki liggur þrotlaus vinna við að gera okkur sýnileg bæði í augum orkugeirans og markaðsgeirans. Fyrir okkur þýðir þetta aðgangur að tengslum og mannauði einnar virtustu stofu heims  á sviði branding en á móti fá þau aðgang að mikilli sérþekkingu á þröngri sillu og það skemmir ekki fyrir að geta komið inn með sérfræðinga í orkumálum frá orkulandinu Íslandi," segir Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri brandr.

Jacob Benbunan, forstjóri og stofnandi Saffron, segir sameiginlegt virðistilboð brandr og Saffron vera einstakt. ,,Við höfum átt í samskiptum við brandr um nokkurt skeið. Stofan hefur vakið athygli á okkar mörkuðum og okkur fannst rétti tíminn núna að formgera samstarfið," segir hann.