Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er einn af sjö framkvæmdastjórum Landsbankans og situr í framkvæmdastjórn en auk framkvæmdastjóranna á Steinþór Pálsson bankastjóri sæti í henni. Hrefna var ráðin til starfa árið 2010 en hafði áður verið sjóðsstjóri hjá verðbréfafyrirtækinu Arev og forstöðumaður skráningarsviðs Kauphallar Íslands.

Hrefna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi frá Tryggingaskólanum og löggildingarprófi í verðbréfaviðskiptum. Hún hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis. Hún er gift og á þrjú börn á aldrinum 8 til 16 ára.

Hrefna bjó í Kópavogi til fimm ára aldurs en þá flutti hún til Skotlands í eitt ár þar sem foreldrar hennar voru við nám.

„Þegar við komum aftur til Íslands fluttum við í sveitina, í Gnúpverjahrepp. Þar var pabbi prestur og mamma grunnskólakennari og við bjuggum í kennarabústaðnum við Árnes. Þetta var góður tími enda eignaðist ég þarna mína bestu vini. Við bjuggum í sveitinni þar til ég varð sextán ára en þá fluttum við aftur í bæinn. Það var eiginlega gert svo ég þyrfti ekki leigja á meðan ég stundaði nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð (MH). Í millitíðinni bjuggum við reyndar í eitt ár í Minnesota í Bandaríkjunum, þar sem foreldrar mínir sóttu sér áframhaldandi framhaldsmenntun. Mamma er doktor í líffræði og pabbi með sérmenntun í því að vera sjúkrahúsprestur og var fyrsti sjúkrahúsprestur landsins.“

Hrefna útskrifaðist af náttúrufræðibraut í MH en ákvað síðan að breyta alveg um kúrs og fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Hún tók sér reyndar árs frí frá námi eftir menntaskólann og starfaði þá peningamálasviði Seðlabankans.

„Ég hafði alltaf verið í skrifstofuleik í sveitinni þannig að þessi áhugi á viðskiptum hafði alltaf blundað í mér þótt það hafi nú kannski komið foreldrum mínum svolítið á óvart þegar ég ákvað að leggja viðskiptafræðina fyrir mig. Ég held að þau hafi frekar séð fyrir sér eitthvert umönnunarstarf, nú eða prestinn“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .