Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, er virkilega ánægður með að skærasta stjarna liðsins frá upphafi, Eiður Smári Guðjohnsen, sé komin í landsliðið á nýjan leik.

Hrósar hann þessum fyrrverandi leikmanni Chelsea og Barcelona í hástert fyrir hugarfariðsem hann kemur með inn í liðið.

„Við getum kallað hann goðsögn í íslenskum fótbolta og ég er virkilega ánægður með hugarfar hans. Jafnvel þótt hann hafi ekki alltaf spilað þegar hann er í hópnum, þá er hann mikil fyrirmyndog hefur hjálpað liðinu mikið með sinni reynslu. Hann er frábær innan hópsins og sem manneskja hefur hann mjög jákvæð áhrif á liðið. Hann er líka ennþá frábær leikmaður og það mikilvægasta er að hann fái að spila sem mest, það var eitthvað sem vantaði áður en hann fór til Bolton. Ef hann fær áfram að spila getur hann fært landsliðinu mikið,“ segir Lars.

Eiður gekk til liðs við kínverska liðið Shijiazhuang Ever Bright á dögunum og er Lars sáttur við þau skipti þó að kínverska deildin sé lítt þekkt hérlendis. Þar spila einnig þeir Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen.

„Ég hef ekki farið á leik í kínversku deildinni en ég hef horft á leikina sem íslensku leikmennirnir eru að spila þar. Það eina neikvæða er að ferðalögin eru mjög löng og tímamismunur mikill. Í öllu falli sé ég ekkert neikvætt við að spila í kínversku deildinni.“

Ítarlegt viðtal við Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, má finna í Viðskiptablaði dagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .