Brugghúsið gæðingur og eigandi þess, Árni Hafstað, hafa átt í deilum við stóru fyrirtækin á íslenska bruggmarkaðnum, Vífilfell og Ölgerðina og rötuðu þær í fjölmiðla. Árni segir í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu að þau mál séu til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Upphaf deilnanna má rekja til þess þegar nýr eigandi tók við Íslenska barnum í október 2011, en fram að þeim tíma hafði verið hægt að kaupa bjór frá Gæðingi á krana á barnum.

„Fyrir voru Viking [Vífilfell] og Kaldi. Ég kem með tvo krana þarna og það seldist ágætlega. Þetta var nokkur lyftistöng fyrir brugghúsið og gerði okkur líka sýnilegri. [...] Síðan skipti þessi bar um eiganda og sá henti út Kalda og Gæðingi og hafði bara Vífilfell á krana. Þar kom í hnotskurn fram sú staða sem flestir veitingamenn hafa sett sig í með hjálp góðra aðila, Vífilfells og Ölgerðarinnar. Þeir geta sig hvergi hreyft í raun og veru. Það er ekkert sem bannar þeim það en í raun og veru geta þeir sig ekki hreyft frá þeim aðila sem þeir kaupa af á meðan samningur er í gildi. Þau mál eru raunar til umfjöllunar frá Samkeppniseftirlitinu,“segir Árni.

„Meira að segja í gær var einn sem sýndi því áhuga að fá bjór. Ég spurði hvort hann væri að spá í að kaupa þetta allt á krana. „Nei, ég veit ekki hvort þeir yrðu ánægðir með það,“ svaraði eigandinn. Ég veit að þarna er hann ekki að vísa í eigandann því það var eigandinn sjálfur sem talaði við mig. Hins vegar er ekkert óalgengt að menn segi að þeir vildu vera með bjór frá mér. Sem þýðir að þeir geta það ekki einhverra hluta vegna.

Ítarlegt viðtal er við Árna í Viðskiptablaðinu og geta áskrifendur nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.