*

laugardagur, 25. september 2021
Fólk 1. ágúst 2021 19:22

Í smitrakningu fyrir Covid

Þorgeir Karlsson hefurbrennandi áhuga á forritun en nýtur þess einnig að spila sundknattleik og hlutverkaleiki.

Snær Snæbjörnsson
Þorgeir Karlsson er nýr framkvæmdastjóri tæknisviðs Solid Clouds.
Aðsend mynd

Þorgeir Auðunn Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá tölvuleikjafyrirtækinu Solid Clouds, en hann starfaði áður sem umsjónarmaður tæknimála hjá félaginu. „Ég mun vera yfir öllum tæknimálum og hafa yfirumsjón með    útfærslu og uppbyggingu  allra leikja Solid Clouds. Áður var ég yfir eldri leiknum, Starborne: Sovereign Space," segir Þorgeir. „Þetta er mjög spennandi og valdeflandi starf. Ég er ekki að forrita sjálfur heldur að leiðbeina og aðstoða aðra við að finna lausnir á vandamálum. Það hentar mér vel því mér finnst mjög gaman að leiðbeina öðrum."

Það er ekki erfitt að sjá að tækni og kennsla sé rauði þráðurinn í starfsferli Þorgeirs. Áður en hann hóf störf hjá Solid Clouds var hann aðstoðarkennari í tölvunarfræði hjá HR og meðstofnandi félags sem kennir börnum forritun í gegnum tölvuleik. „Ég er búinn að vera að forrita í yfir tíu ár og allir sem þekkja mig myndu segja að ég væri mjög ástríðufullur fyrir tækni og forritun. Ég dúxaði við Tækniskólann og fékk í kjölfarið vinnu sem forritari hjá Íslandsbanka. Þá var ég yngsti starfsmaður bankans til að vera titlaður forritari, 19 ára gamall." 

Hann var eitt ár í meistaranámi við Emory-háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum en lokaverkefnið fjallaði um smitrakningu, áður en flestir höfðu nokkru sinni heyrt minnst á slíkt. „Við vorum að vinna í þessu rétt áður en Covid skall á, sem er frekar fyndið. Verkefnið gekk út á að rekja smit í gegnum síma með notkun farsímaturna."

Þorgeir er trúlofaður Hörpu Maríu Jörgensen og saman eiga þau átján mánaða gamla dóttur. Þau eru um þessar mundir að setja á laggirnar netverslun með þroska- og kennsluleikföng sem byggja á svokallaðri Montessori uppeldisfræði. „Þetta eru vörur sem eru mjög hnitmiðaðar í áttinni að henni. Þessar vörur voru ekki til hér á landi áður."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér