Þeir sem tóku þátt í útboði Haga í desember í fyrra geta unað ansi vel við sinn hlut. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað jafnt og þétt frá skráningu þess og er nú komið í yfir 20 krónur eða 20,35 þegar þetta er skrifað. Útboðsgengið í desember var 13,5 krónur á hlut þannig að þeir sem fjárfestu í Högum þá hafa fengið um 50% ávöxtun á sinn hlut á rétt liðlega tíu mánuðum. Ef miðað væri við lokagengi fyrsta dags Haga í Kauphöllinni, en það var 15,95 nemur hækkunin engu að síður 28% þannig að þeir sem keyptu eftir skráningu hafa líka fengið allnokkuð fyrir sinn snúð.

Hálfsárshagnaðurinn aldrei meiri

Rekstrarár Haga hefst 1. mars þannig að fjórðungsuppgjörið nú er jafnframt hálfsársuppgjör félagsins og nam hagnaðurinn 1.554 milljónum króna á móti 1.025 milljónum á fyrri helmingi síðasta rekstrarárs. Hann jókst því um liðlega 50% og EBITDA-framlegð hefur ekki áður verið hærri, en hún var 8,2% af tekjum. Hagnaður á hlut á fjórðungnum var 0,79 á móti 0,4 á sama tímabili fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.