Streymisveitan Spotify var skráð á markað í kauphöllinni í New York í síðustu viku. Skráningin var með nokkuð óhefðbundnum hætti þar sem hlutafé félagsins var hvorki aukið né var félagið skráð á markað með aðstoð fjárfestingabanka. Verð hluta í félaginu fór hæst í 165,9 dollara en áður hafði hver hlutur í félaginu verið talinn um 132 dollara virði og markaðsvirði félagsins þá um 23 milljarðar bandaríkjadala. Þegar þetta var skrifað á miðvikudegi stóð gengi bréfa félagsins í tæpum 155 dollurum og félagið því metið á 27 milljarða.

Skráningin var ein stærsta skráning tæknifélags á markað í sögunni. Helstu vandkvæðin við skráninguna voru ef til vill vandræðagangur kauphallarstarfsmanna við að finna réttan fána. Sænski tækniblaðamaðurinn Sven Carlsson birti á Twittersíðu sinni mynd af kauphöllinni í New York þar sem risastórt merki Spotify blasti við auk tveggja bandarískra fána. Þriðji fáninn sem dreginn var að húni þann daginn var sá svissneski, en svo virðist sem fánavörður kauphallarinnar hafi farið hilluvillt, en eins og kunnugt er á Spotify rætur sínar að rekja til Svíþjóðar. Þessu var þó snarlega kippt í liðinn.

Getur Spotify skilað hagnaði?

Spotify hefur frá stofnun árið 2006 ekki skilað hagnaði. Greiðandi áskrifendur að þjónustu Spotify voru í lok síðasta árs 71 milljón og virkir notendur í heild 157 milljónir, sem þýðir að um 86 milljónir láta sig hafa að hlusta á auglýsingar milli laga. Væntingar standa til að áskrifendurnir verði 170 milljónir í lok þess árs, þar af greiði 90 milljónir fyrir þjónustuna. Næstumsvifamesta tónlistarstreymisveitan, Apple Music, telur 38 milljón áskrifendur. Ekki er hægt að nota Apple Music án endurgjalds eftir að þriggja mánaða reynslutíma lýkur.

Tekjur Spotify á síðasta ári voru um 4,1 milljarður evra. Það er tæp fjórföldun frá árinu 2014 og rúmlega tvöföldun frá 2015. Kostnað­ ur við vörusölu hjá félaginu hefur hins vegar líka aukist verulega. 2014 var hann 910,5 milljónir evra og 1,7 milljarðar árið eftir. Í fyrra var hann 3,2 milljarðar. Þá hefur kostnaður við markaðssetningu, rannsóknir og þróun og annar kostnaður aukist mikið. Til samans hefur annar rekstrarkostnaður en kostnaður við vörusölu farið úr 365,4 milljónum árið 2014 í 1,2 milljarða í fyrra og vaxtakostnaður úr 19,5 milljónum í 974 milljónir. Á sama tíma hefur tap félagsins aukist úr 188,1 milljón evra árið 2014 í 1,2 milljarða í fyrra. Af þessu sést að útgjöld Spotify aukast í takt við tekjur. Þetta stafar meðal annars af því að Spotify greið­ ir listamönnum þóknun fyrir hverja hlustun á lög þeirra. Tónlistarmenn hafa gagnrýnt Spotify fyrir það hversu lág þessi upphæð er en þrátt fyrir það virðist hún duga til þess að gera félaginu erfitt að komast upp fyrir núllið. Spotify er eftir sem áður þakkað fyrir að hafa átt þátt í að velta í tónlistarbransanum hefur aldrei verið meiri og að ólöglegt niðurhal virðist vera á undanhaldi.

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka, segir fjárfesta líta svo á að verðmæti Spotify felist í möguleikum fyrirtækisins að skila hagnaði í framtíðinni. „Hagnaður af reglulegri starfsemi er annað en heildarafkoma. Maður sér til dæmis að Amazon, sem er með bullandi framlegð af reglulegri starfsemi, skilar óvenju litlum bókhaldslegum hagnaði, því þeir nota framlegðina í áframhaldandi fjárfestingar,“ segir Björn Berg. Hann bendir líka á að greiðandi áskrifendum hafi fjölgað mjög mikið hjá Spotify að undanförnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .