Maul, fyrirtæki Egils og Hrafnkels Pálssona, var eitt þeirra tíu af um 150 umsækjendum sem komust áfram í Viðskiptahraðli Startup Reykjavíkur sem haldinn var í sumar, en hraðallinn er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Arion banka.

Grunnhugmyndin að baki Maul er hugbúnaður sem gerir starfsmönnum ólíkra vinnustaða kleift að panta daglega hádegismat víðs vegar að og fá hann sendan á vinnustaðinn. „Nú erum við að taka til starfa hérna í Reykjavík og erum við byrjaðir að senda hádegismat á eitt fyrirtæki nú þegar, Trackwell, og síðan bætast Nova og fleiri fyrirtæki við á næstu vikum,“ segir Egill sem ásamt bróður sínum Hrafnkeli eru að koma fyrirtækinu á laggirnar, en að auki njóta þeir hjálpar Lilju Guðmundsdóttur.

„Ég er náttúrulega fyrst og fremst í stríði við samlokur í hádeginu, það er sölupunkturinn minn við starfsmanninn, að valið snúist ekki um hvort þú borðir túnfisksamloku eða roastbeefloku heldur séu valkostirnir miklum mun fleiri.“ Egill segir að þó að fyrirtækið sé nýtilkomið hafi þeir í raun töluverða reynslu af svona þjónustu enda hafi þeir keyrt svipað kerfi hjá fyrrverandi vinnuveitenda þar sem mikil ánægja hafi verið með fyrirkomulagið.

„Ég hef gengið með það í hausnum lengi að gera eitthvað sjálfur, nú var bara komið að því, enda var mér farið að litast mjög vel á þessa hugmynd. Með því að komast inn í Startup Reykjavík fékk maður síðan tækifæri til að velta hugmyndinni ansi vel fyrir sér, spegla hana með reyndu fólki og viðskiptagúrúum, bæði innlendum og erlendum. Við fengum fullt af góðri gagnrýni og ráðum og við það breyttist hugmyndin aðeins.“

Grunnhugmyndin er að búa til einfalt viðmót fyrir starfsmenn og fyrirtæki til að fá til sín sendan mat frá mismunandi stöðum á hverjum degi á þægilegan hátt, en þeir bræður hafa báðir starfað í mörg ár sem forritarar.

„Þetta er vefsíða og síðar app, þar sem við verðum búin að setja upp matseðla fyrir vikuna, sem við sérsníðum fyrir hvert og eitt fyrirtæki. Þar geta starfsmenn í lok hverrar viku valið milli tveggja eða þriggja rétta frá mismunandi veitingastöðum á hverjum degi vikunnar, sem við sendum síðan á vinnustaðinn,“ segir Egill.

Hádegismaturinn er gæðastund í stað þess að missa fólk út

Egill segir helsta kostinn við þjónustu Maul vera að þannig geti starfsmenn fengið fjölbreyttan mat á sama tíma og matsölustaðirnir sem taka þátt geti gert áætlanir fram í tímann.

„Fyrir vinnustaði er svo mikilvægt að geta boðið upp á ígildi mötuneytis, þar sem starfsmenn hafi afslappaða samverustund sem hristir upp í hópnum. Hádegismaturinn verður svona gæðastund starfsmannanna þar sem alls konar hugmyndir geta kviknað,“ segir Egill.

„Viðskiptavinir mínir eru fyrst og fremst fyrirtækin sjálf, þó ég horfi auðvitað á að þetta þýði bætta þjónustu fyrir starfsmennina líka. Stóri sölupunkturinn minn er að vinnustaðurinn er með þessu ekki að missa fólk út í hádeginu, því það getur kostað heilmikið óhagræði með tilheyrandi tíma og veseni fyrir starfsmennina að hugsa um það á hverjum degi hvað þeir ætla að fá sér, og svo fara út úr húsi til að ná í það.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .