*

sunnudagur, 7. júní 2020
Innlent 12. ágúst 2018 10:02

Í tengslum við nokkur hundruð sprotafyrirtæki

„Ég hef fjárfest í um það bil 50 sprotaverkefnum víða um heim og er í tengslum við nokkur hundruð sprotafyrirtæki og veiti þeim ráðgjöf."

Sveinn Ólafur Melsted
Davíð Helgason, fjárfestir og einn af stofnendum Unity Technologies.
Heiða Halls

„Mestur tími minn þessa dagana fer í að fjárfesta og einnig í ráðgjöf við sprotafyrirtæki. Ég hef mikinn áhuga á nýsköpun og sprotastarfsemi, og fjárfesti nær eingöngu í sprotafyrirtækjum. Ég er einnig í stjórn Unity og stjórnum hjá öðrum tæknifyrirtækjum út um allar trissur. Ég hef fjárfest í um það bil 50 sprotaverkefnum víða um heim og er í tengslum við nokkur hundruð sprotafyrirtæki og veiti þeim ráðgjöf. Þessi fyrirtæki eru staðsett út um alla Evrópu og einnig í Bandaríkjunum," segir Davíð Helgason, fjárfestir og einn af stofnendum Unity Technologies.

Íslendingar góðir í að búa til tölvuleiki

Í síðustu viku stóð Startup Reykjavík fyrir viðburði, þar sem frumkvöðlum og öðrum áhugasömum gafst kostur á að spyrja Davíð spjörunum úr. Davíð kveðst hafa fjárfest í sprotafyrirtækjum hér á landi, en segir að það skipti sig litlu máli frá hvaða landi sprotafyrirtæki koma.

„Ég er eins og staðan er í dag með eina fjárfestingu í gangi í íslensku sprotafyrirtæki, en það fyrirtæki heitir Teatime og er fyrirtæki sem var stofnað af stofnendum Plain Vanilla. Ég var einn af fyrstu fjárfestum Plain Vanilla og sat í stjórn þess alla leið. Ég sit núna í stjórn Teatime og Þorsteinn Friðriksson, fyrrverandi forstjóri Plain Vanilla, er forstjóri fyrirtækisins.

Ég hef skoðað aðrar fjárfestingar á Íslandi og ég kem á hverju sumri og heimsæki Startup Reykjavík til að hjálpa sprotafyrirtækjunum þar. Þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvaða sprotafyrirtæki ég fjárfesti í skiptir það mig litlu máli frá hvaða landi fyrirtækin koma, það skiptir mig meira máli að þessi fyrirtæki séu skemmtilegur og spennandi fjárfestingakostur. Ég hef fjárfest í sprotafyrirtækjum nokkurra íslenskra stofnenda, sem eru með fyrirtæki erlendis. Meðal þeirra er Klang Games sem er sprotaleikjafyrirtæki sem Mundi vondi [Guðmundur Hallgrímsson] er framkvæmdastjóri hjá og er staðsett í Berlín, Raw Fury sem Jónas Antonsson er með og er tölvuleikjaforlag í Stokkhólmi og svo er Halli Björnsson einnig með leikjafyrirtæki í Nottingham. Íslendingar virðast vera mjög góðir í að búa til tölvuleiki og því hafa hlutirnir æxlast á þann veg að ég hef fjárfest í nokkrum tölvuleikjafyrirtækjum sem Íslendingar standa á bak við," segir Davíð.

Fjárfestir einungis í tæknifyrirtækjum

Davíð segir að allar fjárfestingar hans séu í einhvers konar tækni, þar sem hann skilji slíka fjárfestingarmöguleika best.

„Ég þekki tölvuleikjabransann vel og fjárfesti svolítið í honum. Ég fjárfesti mest í tækni- og hugbúnaðarfyrirtækjum sem þróa almennan hugbúnað og forritunarverkfæri, þar sem ég þekki það umhverfi vel og hef staðið í slíkri þróunarvinnu hjá Unity. Ég fjárfesti einnig aðeins í líftæknifyrirtækjum. Ef fólk sýnir mér áætlun fyrir tæknifyrirtæki þá veit ég hvert það er að fara og skil áætlunina. Mér hefur til dæmis staðið til boða að fjárfesta í veitingastað, en þegar mér er sýnd fjármálaáætlun fyrir veitingastað þá þekki ég hana ekki eins vel og sé því ekki í gegnum það hvort þetta sé góð hugmynd eða ekki."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér