Það mun ekki gera Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auðveldara að taka erfiðar ákvarðanir varðandi vanda nokkurra evruríkja að framkvæmdastjóri sjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, hafi verið ákærður fyrir kynferðisbrot.  Sérstaklega í ljósi þess að John Lipsky, staðgengill Strauss-Kahn, hefur tilkynnt að hann ætli að stíga til hliðar í ágúst næstkomandi. Þetta kemur meðal annars fram í leiðara Financial Times í dag.

Fimm ára skipunartíma framkvæmdastjórans lýkur í lok næsta árs en að mati FT mun það líklega verða mat Strauss-Kahn og stjórnar AGS að best sé að hann stígi til hliðar á meðan málaferlin standa yfir. Fyrirséð er að nokkur átök verða um arftakann og hafa þau sjónarmið heyrst að best sé að fulltrúi ríkis utan Evrópu taki að sér að stjórna AGS á meðan evruríkin vinni sig í gegnum skuldakreppuna. Þó telja fleiri mikilvægara að horfa til hæfasta einstaklingsins í stað þess að einblína á hvaðan hann komi.

Rannsókn á máli Strauss-Kahn heldur áfram í New York Bandaríkjunum og hefur hann samþykkt að fara í læknisskoðun til að ljúka tæknilegri rannsókn á ásökunum um kynferðisbrot gegn hótelþernu. Af þeim sökum var því frestað að leiða hann fyrir dómara í gær, sunnudag. Lögmenn framkvæmdastjórans segja að hann lýsi sig saklausan af ásökununum.