Bandaríski snyrtivörurisinn Estée Lauder Companies á í viðræðum um að kaupa hátískumerkið Tom Ford, samkvæmt heimildum Wall Street Journal. Talið er að kaupverðið gæti numið 3 milljörðum dala eða yfir 400 milljörðum króna sem myndi gera yfirtökuna þá stærstu í sögu snyrtivörusamstæðunnar.

Markaðsvirði Estée Lauder, sem á vörumerki á borð við MAC, Clinique, La Mer og Aveda, er um 97,4 milljarðar dala. Talið er að Estée Lauder hafi einkum áhuga á snyrtivörum Tom Ford en samstæðan er þegar með leyfissamning um þær vörur. Með sölunni myndi félagið eignast fatalínu Tom Ford og gæti þá boðið öðrum fyrirtækjum leyfissamninga á þeim hluta starfseminnar.

Heimildarmaður WSJ segir þó óvíst hvort samkomulag náist á milli Tom Ford og Estée Lauder og að fleiri aðilar hafi áhuga á tískumerkinu.